Lógó

Mosi frændi

Saga Mosans

Mosi Frændi var stofnaður í M.H. í október árið 1986. Ári síðar gaf sveitin út þrettán laga snældu þar sem önnur hliðin var með frumsömdum lögum en hin með misfrumlegum ábreiðum. Tónleikar í tengslum við útkomu spólunnar vöktu nokkra athygli og blaðaskrif og í framhaldinu var Mosa Frænda boðið að setja lög á safnsnældu frá Erðanúmúsík sem bar heitið Snarl 2. Upphaflega áttu að vera þrjú lög frá hverju bandi en vegna fjölda hljómsveita var þeim fækkað í tvö. Lagið "Vélin" sem er að finna hér á síðunni, lá því óbætt hjá garði í nær tvo áratugi en heyrist nú loksins aftur.

Mosinn hélt áfram að skipuleggja og halda tónleika sem vöktu mismikla lukku áhorfenda og blaðamanna. Sumir töluðu um "menntaskólahúmor á fyrsta stigi rotnunar," og Ari nokkur Eldon sem þá var bassaleikari í pönkhljómsveitinni Sogblettum, lagði til í blaðadómi um tónleika Mosans á Hótel Borg að best væri fyrir alla ef þessi hljómsveit hætti að koma fram. Hugsanlega höfðu Sogblettir móðgast yfir frasanum "Sogblettir eru vandamál" í lagi Mosa Frænda á Snarl-spólunni, hver veit? En aðrir blaðamenn voru hrifnari, einna helst Þorsteinn J. Vilhjálmsson sem skrifaði í tónleikaumfjöllun:

"Mosi Frændi er með skemmtilegri fyrirbærum í músíklífinu um þessar mundir. Kaldhæðnislegir útúrsnúningar er stefna út af fyrir sig. Sveitin er leitandi og óhrædd við að ráðst á garðinn þar sem hann er hæstur. Virðingarvert."
Kvöld eitt var sá sami Þorsteinn Joð að stýra útvarpsþætti sínum á Bylgjunni og fékk hlustendur til þess að semja með sér popptexta. Mosi Frændi setti sig í samband við Þorstein og bauðst til að semja lag við textann. Lagið vakti hrifningu ráðamanna á Bylgjunni sem fjármagnaði stúdíóupptöku af laginu sem hljómaði linnulaust í útvarpi sumarið 1988 og var þaulsetið á vinsældalistum stöðvanna. Um svipað leyti og lagið sem um ræðir, "Katla Kalda," sló í gegn, skráði Mosi Frændi sig í Músíktilraunir og komst í úrslit. Einhverra hluta vegna hafði Mosinn ekki erindi sem erfiði á úrslitakvöldinu en þó var ákveðið að ráðast í að gefa út smáskífu sem leit dagsins ljós í júlímánuði. Þrátt fyrir að Kötlulagið væri orðið afar þreytt af ofspilun seldist nær allt upplagið, tæplega 500 eintök. Lagið sem var á hinni hliðinni, "Ástin sigrar (?)" komst í takmarkaða útvarpsspilun en á næstu misserum átti það eftir að verða költ-hittari þegar útvarpsstöðvar á borð við Útrás gerðu því betri skil en Bylgjan og Stjarnan höfðu gert.

Þegar hér var komið sögu var þó þreyta komin í samstarfið og um haustið 1988 ákváðu meðlimir Mosa Frænda að láta gott heita.